Nýjast á Local Suðurnes

SBK verður ABK – Áfram starfsstöð á Suðurnesjum

Eitt elsta hópferðafyrirtæki landsins, SBK ehf., hefur skipt um nafn og heitir nú ABK ehf. Fyrirtækið hefur verið töluvert í fréttum undanfarið eftir að það rifti samningi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) varðandi akstur strætó á milli Reykjavíkur og Reykjaness. Nafnabreytingin er liður í skipulagsbreytingum eiganda fyrirtækisins, Kynnisferða ehf.

Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða, sagði í samtali við Suðurnes.net að nafnabreytingin tengdist ekki fyrirhuguðum málaferlum SSS, heldur væri um að ræða skipulagsbreytingar innan fyrirtækisins. Fyrirtækið myndi halda starfsstöð sinni í Grófinni áfram og að meirihluti starfsfólks SBK héldi vinnunni, þrátt fyrir breytingarnar, enda væru umsvif fyrirtækisins mikil á Reykjanesinu meðal annars í akstri flugrútu auk þess sem skipulagðar ferðir fyrirtækisins í Bláa lónið væru vinsælar. Þá sagði Björn að vörumerkið SBK yrði notað áfram þrátt fyrir að það yrði fært yfir til Kynnisferða.