Nýjast á Local Suðurnes

Heildarfasteignamat á Suðurnesjum hækkar um 4,2%

Myndin tengis fréttinni ekki beint

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 5,8% frá yfirstandandi ári og verður 5.755 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2016 sem Þjóðskrá Íslands birti fyrir skömmu. Fasteignamatið hækkar á 93,4% eigna en lækkar á 6,6% eigna frá fyrra ári.

Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2015. Það tekur gildi 31. desember 2015 og gildir fyrir árið 2016. Athygli er vakin á því að frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 1. september 2015.

Heildarfasteignamat á Suðurnesjum hækkar um 4,2%, til samanburðar hækkar matið á höfuðborgarsvæðinu um 6,7% og um 2,6% á Suðurlandi.

Tilkynning um matið ekki send bréflega

Upplýsingum um fasteignamatið verður miðlað með sama hætti og undanfarin ár, segir í tilkynningu frá Þjóðskrá.  Eigendur fasteigna geta frá 15. júní nálgast tilkynningarseðil um mat á eignum sínum á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is. Til þess þarf rafræn skilríki eða Íslykil sem auðvelt er að sækja um sé hann ekki tiltækur. Einnig er hægt að nálgast fasteignamatið á heimasíðu Þjóðskrár, www.skra.is.

Tilkynning um fasteignamatið 2016 er því rafræn og verður ekki send út í hefðbundnum bréfpósti en fólk getur haft samband við Þjóðskrá og fengið tilkynninguna  senda heim til sín.