Nýjast á Local Suðurnes

Ná ekki að koma öllum farþegum út úr flugvélum

Erfiðlega hefur gengið að koma farþegum úr flugvélum á Keflavíkurflugvelli, en vindur hefur mælst allt að 34 m/s á vellinum. Björgunarsveitir hafa reynt sitt besta, með aðstoð flugvallarþjónustu Isavia, að sögn formanns Björgunarsveitarinnar Suðurnes, en í tilkynningu segir að enn séu farþegar í vélum á vellinum.

Tilkynningin í heild:

Kl 09:20 í morgun fékk Björgunarsveitin Suðurnes útkall/hjálparbeiðni frá Icelandair við bjarga farþegum frá borði flugvéla sem voru annaðhvort komnar inn á stæði eða fastar á akbrautum vegna veðurs. Á keflavíkurflugvelli fór vindurinn í 68 hnúta eða 34 m/sek og vegna mjög svo slæmra skilyrða gekk bara að tæma eina vél. Hreyfingarnar á flugvélunum í vindinum voru einfaldlega of miklar til að það væri hægt væri með öruggu móti að koma stigabíl að flugvélunum. Að verkefninu komu auk Björgunarsveitarinnar Suðurnes Björgunarsveitin Ægir og Björgunarsveitin Sigurvon. Einnig kom flugvallarþjónustan á Keflavíkurflugvelli með stóra slökkvibíla til að mynda skjól fyrir þá farþega sem komust frá borði. Þegar við vorum kölluð út þá var búið að reyna allt til þess að koma farþegum á öruggan hátt frá borði og sáu forsvarsmenn Icelandair og Isavia ekki neina lausn nema með aðkomu björgunarsveitarinnar. Því miður gekk ekki að tæma allar vélar og tryggja öryggi flugfarþega og því eru enn farþegar í þeim vélum sem ekki var hægt að tæma. Þeir farþegar eru öruggir í vélunum, en biðin er leiðnleg og okkur þykir leitt að hafa ekki getað klárað verkefnið eins hratt og við vildum.

Haraldur Haraldsson
Formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes.