Nýjast á Local Suðurnes

Reykjaneshöfn býður út förgun á vandræðabát

Reykjaneshöfn hefur boðið út förgun á eikarbátnum Stormi SH-333, en báturinn hefur verið til vandræða undanfarin misseri og sokkið nokkrum sinnum, þar sem hann liggur í Njarðvíkurhöfn.

Verkið sem Reykjaneshöfn býður út felst í að fjarlægja og farga eikarbátnum Stormi SH-333, sem er skráður 75,95 brúttórúmlestir. Báturinn er í Njarðvíkurhöfn. Reykjaneshöfn áætlar að verkið taki þrjá mánuði og skal lokið eigi síðar en þann 15. júní 2017.

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast útboðsgögn á geisladisk á skrifstofu Verkfræðistofu Suðurnesja, Víkurbraut 13, 230 Reykjanesbæ, frá og með mánudeginum 20. febrúar 2017.

Tilboð verða opnuð á sama stað mánudaginn 6. mars 2017, kl. 11:00.