Nýjast á Local Suðurnes

Rekstur mötuneytis Isavia laus til umsóknar – “Mikil tækifæri í þessum rekstri”

Isavia hefur  auglýst eftir áhugasömum aðila til að sjá um rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt auglýsingunni er um að ræða tvö rými til útleigu undir mötuneyti sem allir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli hafa aðgang að.

Ekki er þó um eiginlegt útboð á þjónustunni að ræða heldur þurfa áhugasamir aðilar að sýna fram á hæfni til að reka mötuneytið, en um er að ræða 6.000 manna vinnustað. Eftir að hæfni hefur verið metin af Isavia fá þeir sem eftir standa að senda inn tilboð í verkefnið.

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia segir þetta vera blandaða aðferð til þess að geta valið út frá gæðum en ekki eingöngu út frá verði, auk þess sem áhersla verði lögð á fjölbreytileika í matargerð.

“Þetta er blönduð aðferð til þess að geta valið út frá gæðum en ekki bara út frá tilboði,” segir Guðni. “Sérstaklega mikil áhersla verður lögð á að starfsfólk Keflavíkurflugvallar hafi val um fjölbreyttan og góðan mat í mötuneytinu sínu því það er auðvitað lykilatriði á ört vaxandi vinnustað.”

Lögð er áhersla á að tilboðsgjafar hafi reynslu af veitingarekstri sem nýtist við rekstur mötuneytisins á Keflavíkurflugvelli, auk reynslu af mannaforráðum, en um er að ræða tvö mötuneyti sem allir 6.000 starfsmenn Keflavíkurflugvallar hafa aðgang að. Þá er gerð krafa um að matreiðslumaður með sveinspróf sé á starfsmannalista tilboðsgjafa.

Guðni segir mikil tækifæri felast í rekstri sem þessum á Keflavíkurflugvelli, enda verði flugvallarsvæðið stærsti vinnustaður landsins innan fárra ára.

“Innan fárra ára verður Keflavíkurflugvöllur stærsti einstaki vinnustaður á Íslandi. Það eru því að okkar mati mikil tækifæri í þessum rekstri.” Sagði Guðni.