Nýjast á Local Suðurnes

Tveggja ára Kolfinna Rán þarf í geislameðferð – Styrktarmarkaður í desember

Keflvíkingurinn Olga Færseth, sem gerði garðinn frægann með Keflavíkur- og landsliðinu í knattspyrnu á árum áður, á fjögur börn ásamt konu sinni Pálínu Guðrúnu Bragadóttur. Næst yngsta dóttir þeirra, Kolfinna Rán greindist með krabbamein í annarri rasskinninni fyrir nokkru síðan, hún gengst um þessar mundir undir lyfjameðferðir og hefur lokið 7 af 9 slíkum meðferðum. Sett hefur verið í gang söfnun fyrir fjölskylduna, reikningsupplýsingar er að finna neðst í fréttinni.

“Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir fjölskylduna og höfum við í mömmuklúbbnum ákveðið að halda markað til styrktar þessari dásamlegu fjölskyldu.” Segir á styrktarsíðu sem sett hefur verið á laggirnar í tengslum við söfnunina.

kolfinna ran

Markaðurinn verður haldinn í sal Framsóknarflokksins á Hafnargötu 62 í Reykjanesbæ fyrstu helgina í desember. Helgin byrjar á fimmtudeginum 3. desember þegar kózýkvöld verður í bæjarfélaginu og þá eru verslanir opnar lengur. 

“Við héldum svona markað í fyrra og þetta var svo skemmtilegt og gefandi, við ákváðum að reyna að hafa þetta árlegt og styrkja fjölskyldu úr Reykjanesbæ sem þarf á því að halda hverju sinni. Á markaðnum verður hægt að kaupa fatnað, skart, skó og barasta allt milli himins og jarðar. Heitt verður á könnunni.” Segir einnig á styrktarsíðinni

Allur ágóði af markaðnum rennur óskiptur til fjölskyldunnar og allir gefa vinnu sína.

Þá kemur fram á styrktarsíðunni að þann 24. september síðastliðinn hafi verið gerð tilraun að fjarlægja æxlið.

“Til þess að sú aðgerð telst hafa heppnast þá þurftu skurðarbrúnir að vera vera lausar við allar krabbameinsfrumur. Því miður var það ekki því að á einum stað voru frumur út við brún. Það þýðir að eftir lyfjameðferðina bætast við geislar.

Það er búið að ákveða að geisla 28 skipti. Það tekur við strax eftir áramót. Það er geislað alla virka daga í einni beit í c.a einn og hálfan mánuð. Þar sem hún er það ung og skilur ekki að hún þarf að vera alveg kyrr þarf að svæfa hana í öll skiptin.”

Stofnaður hefur verið bankareikningur til styrktar litlu hetjunni: Bankaupplýsingar 0542 – 14 – 405025 Kennitala 190113 -2 210