Nýjast á Local Suðurnes

Starf framkvæmdastjóra Kadeco laust til umsóknar

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., Kadeco, leitar að nýjum framkvæmdastjóra. Félagið hefur fengið nýtt hlutverk sem vettvangur samstarfs sveitarfélagana á svæðinu, Isavia og íslenska ríkisins. Markmiðið með samstarfinu er að tryggja að til verði heilsteypt stefna og skipulag um uppbyggingu og þróun flugvallarsvæðisins og nærsvæða þess til framtíðar.

Starfinu er lýst sem fjölbreyttu, spennandi og krefjandi og er leitað að framúrskarandi stjórnanda með þekkingu á þróunarstarfi, skipulagi og verkefnastjórnun. Framkvæmdastjóri Kadeco mun hafa yfirumsjón og leiða þróunar- og skipulagsvinnu á þróunarsvæðinu í samráði við hagsmunaaðila og stjórn félagsins.

Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferlisskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið. Umsóknarfrestur er til og með 14. október 2019.