Verðlaunuð fyrir litríkt og skemmtilegt hvatningarlið í Reykjavíkurmaraþoni

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2015 fór fram í dag. Á Uppskeruhátíðinni fékk Minningarsjóður Ölla verðlaun fyrir þátttöku sína í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons og fyrir litríkt og skemmtilegt hvatningarlið. Verðlaunin voru krónur 50.000 sem bætast við þá upphæð sem þegar hafði safnast.
“Við erum himinlifandi með þetta og kunnum öllum bestu þakkir fyrir sem lögðu hönd á plóg. Sérstakar þakkir fá hvatningarliðsstjórinn Ásdís Jóhannesdóttir og Gunna og Jói fyrir skiltagerð;) Vonandi verður þetta til þess að hvetja fleiri sem ekki hlaupa til að taka þátt í hvatningarliðinu því þeir sem skipuðu það núna voru sammála um að það hafi verið mjög gefandi og skemmtilegt. Áfram við!” Segir á Facebook-síðu Minningarsjóðsins.

Hlaupararnir sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni fyrir Minningar- og styrktarsjóð Ölla. – Mynd Facebook / Minningar-og styrktarsjóður Ölla
Þau félög sem safnaðist mest fyrir í ár voru Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna 5,7 milljónir, Krabbameinsfélag Íslands 3,6 milljónir og MND félagið á Íslandi 2,8 milljónir. 114 af þeim 173 félögum sem tóku þátt í söfnuninni fengu meira en 100.000 krónur í sinn hlut, 22 félög fengu meira en milljón.
Minningar- og styrktarsjóður Ölla hefur það að markmiði að styrkja börn sem minna mega sín á Íslandi til íþróttaiðkunar og var stofnaður til minningar um körfuknattleiksmanninn Örlyg Aron Sturluson sem lést langt fyrir aldur fram af slysförum þann 16. janúar árið 2000, daginn eftir að hann spilaði Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands.