Nýjast á Local Suðurnes

Stakksberg opnar samráðsgátt

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Stakksberg ehf., sem vinnur að endurbótum á kísilverksmiðju í Helguvík hefur opnað samráðsgátt vegna vinnslu frummatsskýrslu umhverfismats kísilverksmiðjunnar. Með samráðsgáttinni vill Stakksberg stuðla að auknu samráði við almenning umfram það sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem framkvæmdaraðili stendur fyrir samráði með þessum hætti á meðan á vinnslu frummatsskýrslu stendur.

Samráðsgátt Stakksbergs sækir fyrirmynd sína í samráðsgátt stjórnvalda. Öllum er frjálst að senda inn athugasemd eða ábendingu en til þess þarf að skrá sig inn með innskráningarkerfi island.is, Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Líkt og í samráðsgátt stjórnvalda eru athugasemdir í samráðsgátt Stakksbergs birtar opinberlega og undir nafni.

Þrjú mál hafa nú þegar verið birt í samráðsgátt Stakksbergs: samfélagsleg áhrif, ásýnd og hljóðvist. Fleiri atriði matsins verða birt eftir því sem vinnu við frummatsskýrslu vindur fram.

Samráðsgáttin er aðgengileg á slóðinni www.samrad.stakksberg.is og einnig frá heimsíðu Stakksbergs, www.stakksberg.com/umhverfismat/.

Að samráðstímabili loknu verður gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda með samantekt á síðu hvers máls. Tekið verður tillit til athugasemda við vinnslu frummatsskýrslu eins og við á og auk þess mun samantekt fylgja sem viðauki við skýrsluna. Þegar frummatsskýrslu hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar verða mál á samráðsgátt Stakksbergs, ásamt athugasemdum og öðru innsendu efni, tekin úr birtingu.