Flug herþota vakti ofsahræðslu meðal barna frá Úkraínu
Flug herþota yfir Ásbrúarsvæðið og jarðhræringar á Suðurnesjum hafa vakið ofsahræðslu meðal flóttamanna af úkraínskum uppruna sem dvelja á Ásbrú á vegum Útlendingastofnunar.
Þetta kemur fram í umfjöllunum sem vefmiðillinn Kjarninn hefur birt undanfarna daga. Umfjöllunin er að mestu byggð á svörum sem UN Women hefur fengið við spurningum sínum frá stofnuninni.
„Jarðskjálftahrinur ollu einnig mikilli hræðslu og engar upplýsingar voru veittar til fólksins, sem margt glímir við áfallastreituröskun. Ásbrú er því ekki ákjósanlegasti dvalarstaðurinn fyrir fólk sem flúið hefur stríðsátök.“ segir í umfjöllun Kjarnans.
“Einstaklingar sem flúið hafa vopnuð átök þurfa öryggi, sálræna aðstoð, góða heilbrigðisþjónustu og mjög skýrar og greinargóðar upplýsingar á móðurmáli um þá þjónustu sem í boði er, réttindum þeirra í móttökuríki og upplýsingum um samfélagið,“ segir í ábendingum UN Women.