Milljarður rís í Hljómahöll – Fólk hvatt til að mæta með “fokk ofbeldi” húfurnar
Föstudaginn 19. febrúar næstkomandi, klukkan 11:45 verður dansað um allt land í tengslum við “fokk ofbeldi” átak UN Women á Íslandi, í ár er dansinn tileinkaður konum á flótta sem leggja líf sitt að veði í leit að öruggara lífi fyrir sig og börn sín.
Hátt í 10 þúsund manns hafa komið saman síðastliðin fjögur ár og fylkt liði á dansgólfum landsins. Í ár verður vonandi gert enn betur og stiginn baráttudans í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupsstað og á Höfn í Hornafirði.
UN Women á Íslandi og Sónar Reykjavík skorar á alla; vinnustaði, skóla og vinahópa til að mæta með dansinn að vopni og “fokk ofbeldi” húfur á höfði – Í Reykjanesbæ verður dansinn stiginn í Hljómahöllinni og mun plötusnúðurinn Atli Már Gylfason halda dansgólfinu í trylltum gír og sjá til þess að allir hreyfi sig.
UN Women hvetja sem flesta til að mæta með “fokk ofbeldi” húfurnar sem samtökin selja um þessar mundir og fást í verslunum Eymundsson. Þá er rétt að benda á að myllumerkið fyrir viðburðinn er #milljardurris16 og #fokkofbeldi og er um að gera að nota þessi myllumerki til að vekja athygli á málstaðnum.