Nýjast á Local Suðurnes

Rúmir 5 milljarðar í nýframkvæmdir á næsta ári

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær, en í umræðum kom meðal annars fram að heildarfjárfestingar í nýframkvæmdum Reykjanesbæjar verða um 5,3 milljarðar á næsta ári. Auk nýframkvæmda verður haldið áfram með endurbyggingu á Myllubakkaskóla og Holtaskóla ásamt því að skólarnir verða stækkaðir og aðgengi stórbætt.

Helstu áherslur og verkefni á árinu 2024, samkvæmt fundargerð bæjarstjórnar:

Í byrjun ársins 2024 stefnum við á að taka í notkun annan áfanga Stapaskóla sem felur í sér fullbúið íþróttahús og sundlaug.

Hönnunarvinna fer af stað á sameiginlegu íþróttasvæði Keflavíkur og Njarðvíkur auk hönnunar á nýju fimleikahúsi.

Nýr vaktturn verður byggður við Sundmiðstöðina til að auka öryggi sundlaugagesta.

Nýir áhorfendabekkir verða settir í Sundmiðstöðina.

Fimleikadeildin fær fjármagn til að endurnýja tæki og búnað deildarinnar.

Við höldum áfram með hvatagreiðslur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 4-18 ára en munum auk þess bjóða í fyrsta skipti hvatagreiðslur fyrir íbúa 67 ára og eldri.

Aðgengi verður aukið í 88 húsinu en lyfta verður sett í húsið ásamt því að Fjörheimar fá aukið fjármagn til að efla þá starfsemi sem þar fer fram og auk þess er vilji til að opna fleiri útibú Fjörheima í hverfunum í samstarfi við skólastjórnendur og frístundastefna sveitarfélagsins verður mótuð.

Framkvæmdir við nýja leikskóla við Drekadal og í Hlíðarhverfi eru í fullum gangi og stendur til að opna þá haustið 2024 en báðir leikskólar eru byggðir fyrir 120 börn hvor. Þá verður einnig opnuð leikskóladeild í húsnæðinu við Skólaveg 1 sem verður hluti af leikskólanum Tjarnarseli sem mun rúma um 25 börn.

Áfram verður haldið með endurbyggingu á Myllubakkaskóla og Holtaskóla ásamt því að skólarnir verða stækkaðir og aðgengi stórbætt. Gert er ráð fyrir að Myllubakkaskóli nái að opna haustið 2025 og Holtaskóli í byrjun árs 2026. Auk þess mun viðhald og endurnýjun halda áfram í öðru húsnæði Reykjanesbæjar þar sem komið hafa fram rakaskemmdir.

Uppbygging á nýju hjúkrunarheimili heldur áfram á árinu.

Fjármagn verður sett í eflingu og endurnýjun skólalóða og í umferðaröryggi barna.

Byrjað verður á hönnun og uppbyggingu smáhýsa fyrir íbúa með fjölþættan vanda.

Uppbygging í Njarðvíkurhöfn heldur áfram sem mun stórbæta aðstöðu á svæðinu og auka möguleika á atvinnuuppbyggingu fyrir hafnsækna starfsemi.

Reykjanesbær mun áfram vinna að innleiðingu stafrænna lausna, framfylgja markaðsstefnu bæjarins, innleiða umhverfis- og loftslagsstefnu og stíga síðustu skrefin í innleiðingu á verkefninu barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF.