Nýjast á Local Suðurnes

Börnin áfram í fyrsta sæti

Öll viljum við tryggja börnum okkar farsæla framtíð. Það er þó ekki alltaf þannig að börn hafi sömu tækifæri þegar kemur að námi, æfa íþróttir eða stunda aðrar tómstundir. Fjárhagsstaða foreldra er mjög misjöfn en við teljum mikilvægt að öll börn njóti sömu réttinda.

Í upphafi kjörtímabilisins var bæjarsjóður Reykjanesbæjar í mjög slæmri stöðu. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga var við það að taka yfir rekstur bæjarins. Til að takast á við fjárhagslegan vanda bæjarfélagsins var nauðsynlegt að beita ströngu aðhaldi í rekstri. Óhætt er að segja að núverandi bæjarstjórn hafi tekist á við þetta verkefni af miklum metnaði og festu.

Gjaldfrjáls skólagögn

Þrátt fyrir kröfu um niðurskurð í rekstri var velferð íbúa bæjarins sett í forgang. Eitt af helstu baráttumálum Samfylkingarinnar er einmitt velferð barnafjölskyldna. Öll börn eiga rétt á jöfnum tækifærum til náms. Gjaldfrjáls skólagögn er dæmi um ákvarðanir sem teknar voru í átt til jöfnuðar barna í skólum Reykjanesbæjar og reyndist sú ákvörðun mikil búbót fyrir margar fjölskyldur.

Hvatagreiðslur þrefaldaðar

Hvatagreiðslurnar voru hækkaðar úr 9.000 kr í 28.000 kr. Hefur þetta gefið fleiri börnum tækifæri til að stunda íþróttir og á þessu ári voru hækkaðar niðurgreiðslur til dagforeldra. Mikill áhugi er á að gera enn betur í þessum málaflokki. Þá má einnig nefna að fasteignaskatturinn var lækkaður til að koma á móts við hækkandi fasteignamat. Það hefur ekki síst komið sér vel fyrir barnafjölskyldur.

Við höfum möguleika á að gera enn betur. Höldum áfram að setja velferð fjölskyldunnar í fyrsta sæti.

Sigurrós Antonsdóttir
Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir
Guðrún Ösp Theodórsdóttir
Þórdís Elín Kristinsdóttir

Höfundar skipa allir sæti á lista Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjanesbæ