sudurnes.net
Rúmir 5 milljarðar í nýframkvæmdir á næsta ári - Local Sudurnes
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær, en í umræðum kom meðal annars fram að heildarfjárfestingar í nýframkvæmdum Reykjanesbæjar verða um 5,3 milljarðar á næsta ári. Auk nýframkvæmda verður haldið áfram með endurbyggingu á Myllubakkaskóla og Holtaskóla ásamt því að skólarnir verða stækkaðir og aðgengi stórbætt. Helstu áherslur og verkefni á árinu 2024, samkvæmt fundargerð bæjarstjórnar: Í byrjun ársins 2024 stefnum við á að taka í notkun annan áfanga Stapaskóla sem felur í sér fullbúið íþróttahús og sundlaug. Hönnunarvinna fer af stað á sameiginlegu íþróttasvæði Keflavíkur og Njarðvíkur auk hönnunar á nýju fimleikahúsi. Nýr vaktturn verður byggður við Sundmiðstöðina til að auka öryggi sundlaugagesta. Nýir áhorfendabekkir verða settir í Sundmiðstöðina. Fimleikadeildin fær fjármagn til að endurnýja tæki og búnað deildarinnar. Við höldum áfram með hvatagreiðslur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 4-18 ára en munum auk þess bjóða í fyrsta skipti hvatagreiðslur fyrir íbúa 67 ára og eldri. Aðgengi verður aukið í 88 húsinu en lyfta verður sett í húsið ásamt því að Fjörheimar fá aukið fjármagn til að efla þá starfsemi sem þar fer fram og auk þess er vilji til að opna fleiri útibú Fjörheima í hverfunum í samstarfi við skólastjórnendur og frístundastefna sveitarfélagsins verður mótuð. [...]