Krefjast þess að ofn United Silicon verði ekki ræstur
Íbúasamtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík krefjast þess að kísilverksmiðja United Silicon verði ekki ræst aftur, jafnvel þótt um tímabundna gangsetningu vegna gagnaöflunar sé að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum, sem birt er í fjölmiðlum í dag. Til stendur að ræsa ofn verksmiðjunnar á morgun, sunnudag.
„Það er með öllu ólíðandi að húsnæði sem telst samkvæmt byggingareglugerðum vera fokhelt eða á byggingarstigi 4 sem telst tilbúið til innréttinga sé opnað fyrir kísilbræðslu sem fullbúin verksmiðja,“ segir í tilkynningunni.
Samtökin voru stofnuð í síðustu viku og mættu um 50 manns á stofnfundinn en hann var sendur út í beinni útsendingu á Facebook-síðu samtakanna og er upptaka aðgengileg þar.
Kosið var í stjórn félagsins og er Einar M. Atlason formaður. Aðrir stjórnarmenn og varamenn eru María Magnúsdóttir, Þórólfur J. Dagsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Margrét Sigrún Þórólfsdóttir, Gunnar Auðunsson, Laeila Friðriksdóttir, Andri Freyr Stefánsson, Gunnlaugur Björgvinsson, Ragnar Ágústsson og Dagný Halla Ágústsdóttir.