Afhentu fjölskyldum langveikra barna styrki
Góðgerðafélagið Bumbuloni veitti í gær fjölskyldum átta langveikra barna styrki í Lindakirkju í Kópavogi. Hver fjölskylda fékk 233 þúsund krónur og var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, viðstaddur þegar styrkirnir voru afhentir.
Suðurnesjakonan Ásdís Arna Gottskálksdóttir er stofnandi félagsins en hún átti átti langveikan son, Björgvin Arnar Atlason sem lést aðeins sex ára að aldri árið 2013. Hún heldur minningu hans á lofti með því að styrkja fjölskyldur sem eru í sömu sporum og hún var í sá sínum tíma.
Fyrir tveimur árum lét Ásdís prenta jólakort með mynd eftir Björgvin sem hún seldi vinum og vandamönnum og fékk svo góðar viðtökur að hún gat styrkt þrjár fjölskyldur langveikra barna um 233 þúsund krónur hverjar. Í fyrra bættust við merkimiðar og nú í ár tækifæriskort. Salan gekk vel í ár ásamt því að fyrirtæki styrktu málefnið, segir í umfjöllun Vísis.is.