Nýjast á Local Suðurnes

Fara í sértækar aðgerðir til að stuðla að þátttöku aðfluttra íbúa í menningarstarfi

Nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að ná til aðfluttra íbúa Reykjanesbæjar og auka þátttöku þeirra í menningartengdum viðburðum eins og til dæmis Ljósanótt, en aðfluttum íbúum hefur fjölgað ört í sveitarfélaginu undanfarin misseri.

Þetta kom fram á fundi menningarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku, en að mati ráðsins hefur mikil umræða skapast um fjölmenningu í Reykjanesbæ og með tilkomu fjölmenningarfulltrúa eru ýmsar aðgerðir í farvatninu sem ætlað er að auka þátttöku íbúa af erlendu bergi brotnu í Ljósanótt og menningarstarfi Reykjanesbæjar öllu.

Um leið og ráðið fagnar þessu vill það vekja athygli á því að í svo stóru bæjarfélagi sem Reykjanesbær er núna er nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að ná til allra íbúa bæjarins. Nauðsynlegt er að bjóða aðflutta íbúa velkomna í bæinn og til þátttöku í Ljósanótt og fara í sértækar aðgerðir til að stuðla að þátttöku þeirra jafnt í Ljósanæturhátíðinni sem og samfélaginu okkar öllu.