Nýjast á Local Suðurnes

Páll Jóhann hættir á þingi eftir núverandi kjörtímabil – Silja Dögg gefur kost á sér áfram

Núverandi þingmenn Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, mun ekki bjóða sig fram í alþingiskosningum sem fyrirhugaðar eru í haust. Páll Jóhann hefur verið alþingismaður Suðurkjördæmis síðan 2013 og situr meðal annars í atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd auk þess sem hann sat í velferðarnefnd árin 2013–2015.

Páll jóhann

Þetta kemur fram í umfjöllun Kjarnans. Páll Jóhann hefur auk þess að sitja á alþingi verið bæjarfulltrúi í Grindavíkurbæ síðan 2010, verið í stjórn Saltfiskseturs Íslands og í stjórn Suðurlinda ehf. síðan 2010. Þá hefur hann verið formaður hafnarstjórnar Grindavíkurhafnar síðan 2011.

Samkvæmt heimasíðu Framsóknarflokksins hafa helstu baráttumál Páls Jóhanns verið afnám verðtryggingar á neytendalánum, leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra húsnæðislána. Endurbygging fiskveiðistefnunnar á grundvelli tillagna svokallaðrar sáttanefndar sem skipuð var fólki úr öllum flokkum og frá hagsmunaaðilum.  Þá hefur hann barist fyrir endurskoðun tekjutengingar örorkubóta- og ellilífeyris.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, sagðist í samtali við Suðurnes.net ætla að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu fyrir flokkinn. Hún hefur, eins og Páll Jóhann, verið á þingi síðan 2013. Silja var 2. varaforseti þingsins frá 2013-2015.