Nýjast á Local Suðurnes

Grindvíkingar leika án útlendings og lykilmanna gegn FSu

Grindvíkingar verða án erlends leikmanns í kvöld þegar nýliðar FSu mæta í Mustad-höllina í Grindavík í Dominos-deild karla. Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga staðfesti þetta við Karfan.is, en Charles „Chuck“ Garcia er ekki væntanlegur til Íslands fyrr en á morgun.

„Ef hann kemur á morgun þá er stefnan að bikarleikurinn gegn Skallagríms verði hans fyrsti hérlendis,“ sagði þjálfari Grindvíkinga við Karfan.is í dag en Skallagrímur og Grindavík mætast í Borgarnesi í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar næsta mánudag.

Það að Chuck sé ekki kominn til landsins eru ekki einu tíðindin af Grindvíkingum um þessar mundir því Hilmir Kristjánsson er enn að jafna sig eftir aðgerð og þá verða þeir Jóhann Árni Ólafsson og Páll Axel Vilbergsson báðir fjarri góðu gamni í kvöld vegna meiðsla.