Nýjast á Local Suðurnes

Deiliskipulagsbreytingar við Framnesveg samþykktar í bæjarstjórn

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í dag breytingar á deiliskipulagi við Framnesveg 9-11. Breytingarnar á skipulaginu heimila eiganda húss sem áður hýsti Sundhöll Keflavíkur að rífa húsnæðið og byggja fjölbýlishús á lóðinni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir sem verið hefur í forsvari fyrir Hollvinasamtök Sundhallarinnar greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir málinu hvergi nærri lokið, en samtökin muni á næstunni láta reyna á skyndifriðun hússins auk þess sem Ragnheiður Elín segir formgalla hafa verið á afgreiðslu umhverfis- og skiplagsráðs bæjarins.

„Jæja…þá liggur það fyrir. Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi vegna Sundhallar Keflavíkur og þar með heimilað niðurrif á þessu sögufræga húsi sem teiknað er af Guðjóni Samúelssyni. Skömmin er þeirra,“ segir Ragnheiður Elín á Facebook-síðu sinni.

„En málinu er hvergi nærri lokið. Við munum leita allra leiða til þess að koma þessu máli farsællega í höfn. Það eru skýrir ágallar á afgreiðslu málsins vegna vanhæfis nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsráði sem skera þarf úr um hjá viðeigandi aðilum, og svo munum við að sjálfsögðu beita okkur fyrir skyndifriðun hússins,“ segir Ragnheiður Elín.