Kanna áhuga íbúa á róttækum aðgerðum gegn kísilveri
Þórólfur Júlían Dagsson, einn forsvarsmanna samtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík kannar nú áhuga íbúa Suðurnesja á að fara í róttækar aðgerðir gegn kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík.
Þórólfur setti upp könnun í Facebook-hópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, þar sem fólki gefst kostur á að merkja við nokkra valmöguleika, auk þess að segja sína skoðun á málinu. Nokkrir hafa tjáð sig í ummælum við könnunina og eru flestir á því að þær aðgerðir sem farið yrði í þyrftu að vera löglegar.
Möguleikarnir sem hægt er að merkja við eru eftirfarandi: Hlutlaus, já, nei, hættið þessu röfli þetta er fínt fyrir bæjarfélagið, auk þess valmöguleika sem hefur fengið flest atkvæði þegar þetta er ritað er; Tökum höndum saman og lokum þessari verksmiðju.