Nýjast á Local Suðurnes

Samþykktu 3,6 milljarða lántöku – Enginn afsláttur frá kröfuhöfum Reykjanesbæjar

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt lántöku að upphæð 3,6 milljarða króna frá Lánasjóði sveitarfélaga. Lánið er til allt að 38 ára, í samræmi við lánstilboð sem liggur fyrir. Kröfuhafar samþykktu ekki niðurfellingar á skuldum sveitarfélagsins og er lánið tekið til endurfjármögnunar á skuldum Reykjaneshafnar.

Það er því ljóst að ekki verða allar skuldir hafnarinnar greiddar upp heldur verður hluti þeirra endurfjármagnaður með veði í lóðum hafnarinnar, en sölu á lóðum er ætlað að standa undir greiðslu þeirra lána auk þess sem tekjur sveitarfélagsins eru settar til tryggingar á greiðslu lánsins.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar staðfesti í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að engar niðurfellingar á skuldum sveitarfélagsins hafi verið samþykktar af kröfuhöfum, auk þess sem einn af kröfuhöfum Reykjaneshafnar hafi ekki samþykkt niðurfellingu á vöxtum. Kjartan Már vildi ekki gefa upp hver sá kröfuhafi er.

Með þessum aðgerðum, og ýmsum öðrum, gerir aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar ráð fyrir að sveitarfélagið nái undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrir árslok 2022. Það veltur þó á því að helstu forsendur aðlögunaráætlunar gangi eftir og að mikils aðhalds verði gætt í rekstri Reykjanesbæjar næstu ár.