Nýjast á Local Suðurnes

Skólamatur biðst afsökunar – “Ekki nægilega vel undirbúin”

Skólamatur ehf., Sem sér um framleiðslu á skólamat, meðal annars í grunnskólum Reykjanesbæjar, hefur sent frá sér afsökunarbeiðni eftir að í ljós kom að ekki tókst nægilega vel til við framleiðslu á mat fyrir nemendur á fyrsta degi skerts skólahalds vegna hertra sóttvarnaraðgerða vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Fram kemur í tilkynningunni að meðal annars hafi í einhverjum tilvikum hafi máltíðir ekki verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins.

Tilkynning fyrirtækisins í heild:

Kæru vinir.

Eftir þennan fyrsta dag í skertu skólahaldi viljum við hjá Skólamat biðjast afsökunar.

Takmörkunin hefur gríðarleg áhrif á alla starfsemi Skólamatar og breyta þarf verklagi frá A-Ö til þess að uppfylla allar kröfur yfirvalda. Eftir takmörkun á skólahaldi fyrr í vor töldum við okkur vera vel í stakk búin til þess að takast á við þessar breytingar. En því miður kom í ljós í dag að við vorum einfaldlega ekki nægilega vel undirbúin.

Maturinn sem skammtaður var í einnota box var í einhverjum tilfellum ekki nægilega mikill og auk þess gleymdist að gera ráð fyrir sósu með matnum á sumum stöðum. Í stuttu máli var þessi máltíð engan vegin í samræmi við þær kröfur sem þið gerið til Skólamatar og okkur þykir það miður.

Við skiljum vel óánægju ykkar og þökkum að sama skapi fyrir þann skilning sem okkur hefur verið sýndur.

Starfsfólk Skólamatar er að vinna að því að finna lausnir á öllu því sem fór úrskeiðis í dag. Að mörgu er að hyggja en við munum gera okkar allra besta til þess að geta áfram boðið nemendum upp á hollan og fjölbreyttan mat þrátt fyrir þessar takmarkanir.

Með kærri kveðju
Starfsfólk Skólamatar