Nýjast á Local Suðurnes

Iceredneck bestur í tippinu og boltasparkinu – Myndband!

Trukkabílstjóranum og SnapChat-stjörnunni Garðari Viðarssyni er margt til lista lagt, en fyrir utan einstaka lagni við stjórnun margra tonna trukka og gríðarlega hæfileika á símamyndavélum er kappinn nokkuð naskur tippari og ansi seigur við boltaspark.

Garðar, sem notast við notendanafnið Iceredneck á SnapChat tók á dögunum þátt í tippleik fótbolta.net og gerði sér lítið fyrir og náði besta árangri árins, en hann tippaði rétt á 7 leiki af 10. Gæi deilir reyndar efsta sætinu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur alþingismanni og knattspyrnumanninum Sigurði Agli Lárussyni.

Snapparinn góðkunni framkvæmdi gestaþraut fótbolta.net, þegar hann mætti í höfuðstöðvar fótboltasíðunnar vinsælu til þess að taka á móti viðurkenningu fyrir árangurinn í tippinu. Gestaþrautin snýst um að koma bolta niður þröngan gang án þess að hann komi við veggina. Frábæra spyrnu Garðars má sjá hér fyrir neðan, en eftir því sem Suðurnes.net kemst næst eru þeir afar fáir sem hafa náð að leysa þessa þraut sómasamlega.