Nýjast á Local Suðurnes

Stela blómum og jafnvel krossum af leiðum – “Hversu lágt er hægt að leggjast?”

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Dæmi eru um að blómum, luktum og jafnvel krossum hafi verið stolið af leiðum í kirkjugörðum á Suðurnesjum. Þetta segir Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir, íbúi í Garði, en það var ömurleg sjón sem blasti við henni í byrjun mánaðarins þegar hún kom að leiði sonar síns í Útskálakirkjugarði. Hafði þá stærðarinnar leirkeri verið stolið af leiðinu.

Það er DV.is sem greinir frá þessu og í umfjöllun vefjarins af málinu kemur fram að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem leiði sonar hennar sé vanvirt með þessum hætti en í samtali við blaðamann DV.is segir Bergþóra mikilvægt að koma upp einhvers konar eftirlitskerfi í garðinum, sem og í öðrum kirkjugörðum.

Sonur Bergþóru, Þórarinn Samúel Falk var aðeins 15 ára þegar hann lést í umferðarslysi í Öxnadal, en það var aðfararnótt 17. júní árið 2005.  Bergþóra fór í lok síðasta mánaðar og keypti stórt og fallegt leirker til að setja á leiði Þórarins, ásamt mold og sumarblómum.

„Ég ætlaði að setja það ofan í jörðina, svo gæti síðan skipt um mold á hverju ári og sett falleg sumarblóm ofan í. Þetta var mjög breitt ker og þungt og það hefði í raun þurft 2 karlmenn til að bera það að leiðinu þannig að ég ákvað að setja bara helminginn af moldinni í kerið og náði þá einhvern veginn að rogast með það að leiðinu. Mér leið ekkert alltof vel, enda stutt í dánardaginn hans og það er alltaf erfiður tími. Ég ákvað þess vegna að koma aftur daginn eftir og klára að gera leiðið fallegt og koma kerinu almennilega fyrir.“

Þegar Bergþóra mætti í kirkjugarðinn daginn eftir varð kerið hins vegar hvergi sjáanlegt.

„Ég lagði bílnum við hliðið og horfði í átt að leiðinu og sá þá engan pott. Ég hélt fyrst að ég væri ekki með augun á réttu leiði, sem er skrítið af því að ég veit alltaf nákvæmlega hvar það er. Ég gekk upp að leiðinu og sá að það að potturinn var horfinn.“

„Maður hefur hingað til verið svo grunlaus. Hvað er í hjartanu á fólki sem gerir svona? Það er svo ótrúlegt að einhver geti gert þetta. Þetta er alveg síðasta sortin. Þeir sem ganga svo langt að stela af leiðum látinna eru siðblint fólk, það er alveg á hreinu.“

Ekki er langt síðan greint var frá því á Suðurnes.net að skemmdarverk hafi verið unnin á leiði í krikjugarðinum í Njarðvík.