ATP Iceland blásin af – Erlendir skipuleggjendur hátíðarinnar gjaldþrota
Tónlistarhátíðin ATP-Iceland sem til stóð að fram færi á Ásbrú í byrjun júlí hefur verið blásin af. Skipuleggjendur tilkynntu þetta á Facebook-síðu hátíðarinnar í dag. Í tilkynningunni kemur fram að fyrirtækið sem sér um skipulagningu ATP-Iceland sé í raun gjaldþrota og að þeir sem hafi þegar keypt miða á hátíðina hér á landi geti notað þá á öðrum hátíðum á vegum fyrirtækisins í Bretlandi. Ekki verður mögulegt að fá miða endurgreidda, að minnsta kosti ekki að sinni, þar sem ekki hefur verið skipaður skiptastjóri yfir búi fyrirtækisins.
Fjallað hefur verið um málefni fyrirtækisins í breskum fjölmiðlum undanfarin misseri og þar kemur meðal annars fram að margir listamenn séu hættir að koma fram á viðburðum á vegum þess. Þá kemur fram í umfjöllun vefútgáfu breska blaðsins The Guardian að listamenn hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína né heldur ferðakostnað, sem oft hleypur á milljónum króna.
Á síðustu mánuðum hefur að minnsta kosti tveimur tónlistarhátíðum á vegum breska viðburðafyrirtækisins ATP music festivals verið aflýst og einhverjar hátíðir hafa verið færðar um set vegna fjárhagserfiðleika rekstraðila hátíðanna.
Fjölmargir listamenn, innlendir sem erlendir, höfðu boðað komu sína á hátíðina á Ásbrú í sumar. Má þar nefna John Carpenter, Dirty Three og Omar Souleyman ásamt íslensku sveitunum Valdimar, Kimono og Muck.