Nýjast á Local Suðurnes

All Tomorrow Parties í krísu – Tónlistarhátíðum aflýst eða þær færðar um set

Á síðustu mánuðum hefur tveimur tónlistarhátíðum á vegum breska viðburðafyrirtækisins ATP music festivals verið aflýst og einhverjar hátíðir hafa verið færðar um set vegna fjárhagserfiðleika rekstraðila hátíðanna. Stefnt er að því að ATP Iceland verði haldin á Ásbrú helgina 1. til 3. júlí næstkomandi.

Fjallað hefur verið um málefni fyrirtækisins í breskum fjölmiðlum undanfarin misseri og þar kemur meðal annars fram að margir listamenn séu hættir að koma fram á viðburðum á vegum þess. Þá kemur fram í umfjöllun vefútgáfu breska blaðsins The Guardian að listamenn hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína né heldur ferðakostnað, sem oft hleypur á milljónum króna.

Iggy Pop tróð upp á ATP Iceland 2015

Iggy Pop tróð upp á ATP Iceland 2015

Söngvari bresku hljósveitarinnar Drive Like Jehu, John Reis, sem átti að koma fram á tónleikum sem aflýst var í Manchester, segir við The Guardian að tónleikahaldarar hafi beðið hljómsveitina um að greiða leigu á vöruhúsi undir tónleikana. Tónleikunum var aflýst eftir að hljómsveitin varð ekki við beiðninni. Í umfjöllun The Guardian um fjárhagsvandræði ATP er rætt við meðlimi um 30 hljómsveita og skemmtikrafta sem allir hafa svipaða sögu að segja.

Tómas Young upphafsmaður ATP Iceland sagðist í svari við fyrirspurn Suðurnes.net ekki vera viðriðinn við hátíðina lengur og kæmi því ekki að henni í ár. Hann gat ekki svarað því hvort hátíðin í ár væri haldin á vegum breska félagsins eða íslenskra aðila.

ATP Iceland tónlistarhátiðin hefur verið haldin undanfarin þrjú ár á Ásbrú og á meðal listamanna sem hafa komið fram á hátíðinni eru hin sögufræga rappsveit Public Enemy og goðsögnin Iggy Pop.

Á meðal þeirra sem hafa boðað komu sína á Ásbrú í sumar eru þekktir erlendir listamenn á borð við John Carpenter, Dirty Three og Omar Souleyman, þá munu íslensku listamennirnir Valdimar, Kimono og Muck koma fram á hátíðinni.