Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðin halda áfram viðskiptum við Henson

Mynd: Grindavík.is

Stjórnir eða ráð innan körfuknattleiksdeilda Grindavíkur, Keflavíkur og Njarðvíkur ræddu málefni íþróttavöruframleiðandans Henson í kjölfar þess að eigandi fyrirtækisins, Halldór Einarsson, skrifaði meðmælabréf fyrir Robert Downey, þegar sá síðarnefndi sótti um uppreist æru eftir að hafa afplánað dóm vegna kynferðisbrota.

Formenn Körfuknattleiksdeildanna þriggja staðfestu í samtali við Suðurnes.net að málefni Henson hafi verið rædd innan þeirra raða, með tilliti til áframhaldandi viðskipta við fyrirtækið, ýmist á stjórnarfundum eða hjá unglingaráðum, en vildu að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Öll félögin ákváðu að svo stöddu að halda áfram viðskiptum við fyrirtækið, enda stutt í að körfuknattleikstímabilið hefjist og nær ógjörningur að skipta um birgja. Allir yngri flokkar félaganna þriggja auk meistarflokka í kvenna- og karlaflokki klæðast fatnaði frá framleiðandanum.