Nýjast á Local Suðurnes

Sonurinn kominn í skammtímavistun – Stofnaði hóp á Facebook fyrir fólk í sömu stöðu

Unnur Helga Snorradóttir, móðir 16 ára drengs sem glímir við margþættan vanda, meðal annars flogaveiki, þroskaveikleika og alvarlega þráhyggju- og áráttuhegðun sem hefur leitt til alvarlegs ofbeldis af hans hálfu gagnvart fjölskyldunni, hefur ekkert heyrt frá félagsþjónustu Reykjanesbæjar, eftir að viðtal birtist við hana á vefmiðlinum Stundinni.

Í viðtalinu kom meðal annars fram að samskipti á milli aðila séu af skornum skammti og á fundi Unnar Helgu með fulltrúa barnaverndarnefndar og fulltrúa frá félagsþjónustunni hafi komið í ljós að fagaðilar ræddust ekkert við. Unnur Helga sagðist í samtali við Local Suðurnes ekkert hafa heyrt í starfsmönnum Reykjanesbæjar eftir að viðtalið var birt en að málin litu þó betur út nú en oft áður, sonurinn hafi fengið skammtímavistun á Heiðarholti og að honum liði mjög vel þar.

“Ég hef ekkert heyrt frá neinum frá Reykjanesbæ, Hann er núna í skammtímavistun á Heiðarholti sem honum líkar mjög vel.” Sagði Unnur Helga.

“Við höfum fengið ráðleggingar frá sálfræðingi og munum setja af stað tvenns konar umbunarkerfi þegar hann kemur heim og erum við mjög spennt fyrir þeim, þar sem þau eru aðeins öðruvísi en við höfum prufað og einnig munum við koma upp myndrænni stundatöflu, sem við munum hjálpast að við að setja saman, sem hjálpar honum að komast í gegnum daginn.” Sagði Unnur Helga.

Þá hefur sonurinn farið í sneiðmyndatöku og lyfjum hefur verið skipt út að beiðni fjöskyldunnar og virðist það vera að virka nokkuð vel.

“Við fengum í gegn að hann fengi sneiðmyndatöku af höfði til að athuga hvort það hefðu orðið breytingar eftir sundferð þar sem hann nær drukknaði, fannst meðvitundarlaus á botninum. Myndatakan kom vel út, engar breytingar sáust.”

“Einnig fórum við fram á lyfja breytingar eftir að eg tók þátt í rannsókn á arfgenginni flogaveiki og þar var kafli um aukaverkanir á flogalyfjunum sem lýstu ástandi hans mjög vel, nú eru liðnar 3 vikur síðan við skiptum út flogalyfjunum og við erum ekki frá því að það hafi sitt að segja. Allavega hefur hann ekki fengið ofsakast.” Sagði Unnur Helga.

Þá hefur Unnur Helga ásamt öðrum foreldrum sem standa í samskiptum við stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga stofnað Facebook-hópinn “Kraftmiklir foreldrar”.

“Við erum búin að stofna Facebook síðu sem heitir kraftmiklir foreldrar, þar ætlum við að safnast saman foreldrar sem erum að berjast við kerfið og vonandi stofnun við foreldrafélag sem verður mjög virkt og sterkt.” Sagði Unnur Helga við Local Suðurnes.

Í grein Local Suðurnes um málefni fjölskyldunnar, sem birtist í kjölfar viðtalsins við Stundina, kemur fram að mikið álag sé á starfsfólki sem sinnir félagsþjónustu og barnavernd, en hver starfsmaður sem sinni þessum málaflokkum í Reykjanesbæ hefur um 40-50 mál á sinni könnu, þegar æskilegt sé að málafjöldi sé í kringum 20.