United Silicon: Auðveldara að vinna að mengunarvörnum með ofninn í gangi

Stjórnendur United Silicon, sem rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík hafa óskað eftir samstarfi við Umhverfisstofnun um endurræsingu verksmiðjunnar og rannsóknir í framhaldi af því. United Silicon mun greiða fyrir rannsóknirnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem birt er á vef RÚV, en þar segir einnig að fyrirtækið hafði samið við norska ráðgjafarfyrirtækið Multikonsult um að gera tillögur að endurbótum. Frumrannsókn þess fyrirtækis bendi til að ekki sé um stórfellda galla að ræða og að verksmiðjan geti náð fullum afköstum.
Þá hefur fyrirtækið samið við norsku loftrannsóknastofnunina Norsk institutt for luftforskning um mælingar á loftgæðum í nágrenni verksmiðjunnar þegar ljósbogaofninn verður ræstur á ný. United Silicon óskar eftir því við Umhverfisstofnun að hún stöðvi ekki rekstur ljósbogaofnsins eftir að hann verður ræstur á ný nema fyrir liggi röskstudd og vísindaleg niðurstaða um að rekstrinum starfi hætta af honum. Stjórnendur United Silicon segja að auðveldara sé að vinna að mengunarvörnum með ljósbogaofninn í gangi.