USi skuldar Reykjanesbæ 160 milljónir króna – Nýttu ekki afslætti í fjárfestingasamningi

Ógreidd gatnagerðar- og fasteignagjöld United Silicon til Reykjanesbæjar nema 162 milljónum króna, en heildargjöld fyrirtækisins til Reykjanesbæjar nema rúmlega 300 milljónum króna. Fyrirtækið nýtti sér ekki ákvæði í fjárfestingasamningi við ríkið um afsátt af umræddum gjöldum.
Aðspurður segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar, að fyrirtækið sé í skilum með greiðslur til Reykjanesbæjar, en samkomulag var gert á milli aðila fyrir stuttu síðan, sem hann vonast til að haldi. Fyrirtækið hefur greitt Reykjanesbæ tæplega helming skuldarinnar, eða um 140 milljónir króna, samkvæmt samkomulaginu.
“Það var gert greiðslusamkomulag fyrir stuttu síðan. Vonandi heldur það.” Sagði Guðbrandur.
Guðbrandur sagði í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag að upphaflega krafan sé um það bil þriggja ára gömul og hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að krafan hafi ekki verið greidd á sínum tíma vegna ágreinings milli Magnúsar Garðarssonar, þáverandi stjórnarformanns United Silicon, og Reykjanesbæjar um skyldur bæjarfélagsins gagnvart verksmiðjunni.