Nýjast á Local Suðurnes

Iceland Defense Force – Ásbrú, síðasta sýningarhelgi

Sýningu Listasafns Reykjanesbæjar ICELAND DEFENSE FORCE – ÁSBRÚ er nú að ljúka en síðasti sýningardagur er 24.apríl n.k.  „Ára“ yfirgefinna staða er framar öðru viðfangsefni Braga  Þórs Jósefssonar ljósmyndara í þessari ljósmyndröð en flestar myndirnar tók Bragi á Keflavíkurflugvelli í kjölfar brottflutnings hersins árið 2006.

Bragi sýndi margar þessara ljósmynda í Ljósmyndasafni Reykjavíkur fyrir ári síðan en í tilefni af því að áratugur var nú liðinn frá því „Iceland Defense Force“ hætti að vernda Íslendinga og hvarf af landi brott taldi Listasafn Reykjanesbæjar  að þessi sýning ætti sérstakt erindi við Suðurnesjamenn, sem tengdir voru  Keflavíkurflugvelli nánari böndum en flestir aðrir Íslendingar.

Bragi Þór setti því  upp endurnýjaða útgáfu af sýningu sinni í safninu, með viðauka um hina nýju ásýnd flugvallarsvæðisins, „nýbúana“ sem nú setja  mark sitt á byggingarnar og svæðið sem fengið hefur hið nýja nafn Ásbrú. Bragi tók því fjölda nýrra ljósmynda þannig að sýningin samanstendur af ljósmyndum teknar á þessu 10 ára tímabili 2006-2016.

Safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00 í Duus Safnahúsum. Sýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar, „Herstöðin sem kom og fór“ sem einnig var opnuð af sama tilefni og á sama stað, lýkur einnig 24.apríl.