Ljósanótt: Einn stærsti hnefaleikaviðburður Íslandssögunar í kvöld

Hnefaleikakeppni þar sem bestu boxarar landsins munu etja kappi við hver annan fer fram í dag föstudaginn 4. september í húsnæði Hnefaleikafélags Reykjanesbæjar að Framnesvegi 9.
Þessi viðburður mun vera með stærri hnefaleikaviðburðum á Íslandi, þar sem innvígðar verða nýjar reglur AIBA, en með breyttum reglum verður í fyrsta skipti leyfilegt að berjast án hjálma hér á landi.
Á meðal keppenda í kvöld verður hinn margreyndi bardagakappi Björn Lúkas Haraldsson úr Grindavík en hann ætlar nú að reyna fyrir sér í fyrsta skiptið í hnefaleikum, Björn er margfaldur Íslandsmeistari í Júdó, Taekwodoo og Brasilísku Jiu jitsu ásamt því að vera tvöfaldur Norðurlandameistari í Júdó.
Hann er einnig einn af fáum Íslendingum sem er með svart belti í tveimur bardagaíþróttum. Björn hefur æft 6 til 7 sinnum viku undanfarna 3 mánuði með Hnefaleikafélagi Reykjaness og verður spennandi að fylgjast með honum takast á við nýja íþróttagrein í kvöld.
Einnig munu fjórir Mjölnismenn mæta á svæðið og keppa fyrir hönd HR-Mjölnis en það eru: Sunna Rannveig Davíðsdóttir, Davíð Már Siguðsson, Magnús Ingi Ingvarsson og Birgir Þór Jóhannsson.
Alls verða 6 bardagar á dagskrá í kvöld og enn er hægt að kaupa miða í forsölu í Lífsstíl Heilsurækt og Kaffi Stefnumót. Einnig er möguleiki á að panta miða í gegnum https://hfrboxing.wordpress.com/keppnir/. Miðinn kostar 1500 kr. í forsölu en 2000 kr. við innganginn.
Húsið opnar kl. 18 en keppnin hefst kl 19 að Framnesvegi 9.