Nýjast á Local Suðurnes

Elías Már skoraði í sigri Gautaborgar – Njósnarar frá 70 félögum á leiknum

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson stal senunni þegar Gautaborg vann 1-0 sigur gegn AIK í gær en hann skoraði sigurmark leiksins. Á Fótbolti.net kemur fram að útsendarar og njósnarar frá hátt í 70 félögum hafi verið á leiknum í gær.

Útsendararnir voru mættir á svæðið til að fylgjast með Alexander Isak hjá AIK, sem er einn allra efnilegasti leikmaður Svía. Hann lét lítið að sér kveða í leiknum í gær á meðan Elías, sem hefur gert 5 mörk í 10 leikjum fyrir Gautaborg, átti góðan leik.

Samkvæmt heimildum Aftonbladet í Svíþjóð er Gautaborg með forkaupsrétt á Elíasi til 15. nóvember og getur keypt hann fyrir rúmlega 19 milljónir íslenskra króna.

„Þetta er raunhæft verð. Ég er byrjaður í viðræðum við umboðsmann hans,” sagði Mats Gren, íþróttastjóri Gautaborgar án þess að vilja gefa upp upphæð. „Svo veltur þetta náttúrulega á því að leikmaðurinn vilji koma til okkar og sé með raunhæfar launakröfur.”