Nýjast á Local Suðurnes

Staðbundin hækkun eldsneytisgjalda talin möguleg leið til að flýta vegaframkvæmdum

Staðbundin hækkun eldsneytis- og bifreiðagjalda er sögð ein leið til flýtifjármögnunar vegaframkvæmda. Kosturinn við slíka aðferð er að fjármögnunin er einföld og kostnaðarlítil auk þess sem mögulegt er að koma í þeirri leið í gagnið fljótt. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegaframkvæmdir – leiðir til fjármögnunnar, sem gerð var opinber í lok apríl.

Í skýrslunni er þessi leið ekki útfærð nánar, en einn af ókostunum við þessa hana er talin vera að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi leggst hækkun bifreiðagjalda jafnt á alla landsmenn óháð notkun þeirra á vegakerfinu og þeim ytri áhrifum sem notkun þeirra veldur öðrum.

Þá er talið að með sífellt sparneytnari farartækjum og aukinni hlutdeild farartækja sem ekki nýta hefðbundið eldsneyti munu tengsl þeirra opinberu gjalda sem innheimt eru og notkunar sífellt veikjast. Þar að auki eru tekjur sem aflað er með þessu móti almennir skattar en ekki skattar eyrnamerktir ákveðnum málaflokki eftir að lög um opinber fjármál tóku gildi og því ekki öruggt að fjármunir myndu ekki rata í framkvæmdir við umferðarmannvirki.