Nýjast á Local Suðurnes

Jet2.com og Jet2CityBreaks tvöfalda ferðaáætlun sína til Íslands

Jet2.com og Jet2CityBreaks hafa ákveðið að meira en tvöfalda ferðaáætlun sína til Íslands veturinn 2019 til 2020. Félögin munu í fyrsta sinn bjóða upp á sérferðir til Íslands frá East Midlands flugvellinum svo viðskiptavinir frá sex flugvöllum í Bretlandi (Birmingham, East Midlands, Glasgow, Leeds Bradford, Manchester og Newcastle) geta nú valið úr 32 þriggja eða fjögurra nótta ferðum til þessa sífellt vinsælli áfangastaðar.

Viðskiptavinir geta valið að kaupa einungis flug eða pakkaferð, en hægt er að bóka pakkaferðir hjá Jet2CityBreaks sem fela meðal annars í sér norðurljósaferð með leiðsögn, flug með Jet2.com, segir í tilkynningu frá Isavia.

Ferðaáætlun

  • 32 ferðir til Íslands til að sjá norðurljósin, meira en tvöfalt fleiri ferðir en í vetur, þar á meðal 12 ferðir í október/nóvember og 20 ferðir frá febrúar til apríl.
  • Birmingham – alls sex ferðir (tvær í nóvember og fjórar í mars/apríl).
  • East Midlands – alls fjórar ferðir (tvær í nóvember og tvær um miðjan mars).
  • Glasgow – alls fjórar ferðir (tvær um miðjan október og tvær í febrúar).
  • Birmingham – alls sex ferðir (tvær í nóvember og fjórar í mars/apríl).
  • Manchester – alls sex ferðir (tvær í október og fjórar frá febrúar til apríl).
  • Newcastle – alls sex ferðir (tvær í október og fjórar frá febrúar til apríl).

Steve Heapy, forstjóri Jet2.com og Jet2holidays sagði: „Ísland er áfangastaður sem nýtur sívaxandi vinsælda vegna fjölda náttúruundra, eins og norðurljósanna, Gullna hringsins og Bláa lónsins. Fyrir utan jarðböðin, goshverina, þjóðgarðana og hin ótrúlegu norðurljós býður Ísland einnig upp á einstaka borgarupplifun í Reykjavík, nyrstu höfuðborg í heimi.“

„Þessi aukna ferðaáætlun sem nú telur 32 ferðir til Íslands gefur viðskiptavinum okkar enn fleiri valkosti veturinn 19/20. Fegurð Íslands, ásamt þeim frábæru fríðindum sem eru í boði í gegnum Jet2.com og Jet2CityBreaks, þýðir að við erum sannfærð um að þessu aukna framboði verði tekið fagnandi.“

„Við á Keflavíkurflugvelli tökum fagnandi á móti okkar góðu vinum hjá Jet2.com,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar. „Samband okkar hefur verið gott og við hlökkum til að vinna með þeim um ókomin ár.֧“