Vilja setja upp myndavélakerfi á Grindavíkurvegi – Gæti fækkað slysum stórlega

Ef áætlanir Vegagerðarinnar ganga eftir munu myndavélar sem mæla meðalhraða ökutækja verða teknar í notkun á Grindavíkurvegi á næsta ári. Vélarnar, sem staðsettar verða á sex til sjö kílómetra kafla á veginum eru taldar munu fækka slysum stórlega, að því er fram kemur fram í skýrslu frá verkfræðistofunni Mannvit, sem unnin var í samstarfi við umferðardeild Vegagerðarinnar.
Í skýrslunni kemur fram að hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir um 14 alvarleg slys og sex banaslys í umferðinni hér á landi, ef sjálfvirku meðalhraðaeftirliti hefði verið beitt á ákveðnum vegköflum. Norsk rannsókn sýnir með óyggjandi hætti að alvarlegum slysum fækkaði meira á svæðum þar sem meðalhraðaeftirliti var beitt, en á svæðum þar sem notast var við punktahraðaeftirlit eins og notast hefur verið við hér á landi undanfarin 10 ár.