Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarráð ræðir sláttinn

Bæjarráð Reykjanesbæjar ræddi garðslátt í sveitarfélaginu á síðasta fundi sínum og óskaðu bæjarfulltrúar eftir því að málið yrði rætt nánar. Ákveðið var það verði tekið fyrir á næsta bæjarráðsfundi sem verður þann 16. júlí næstkomandi.

Sláttur á opnum svæðum var boðinn út í Reykjanesbæ fyrir sumarið og bauð fyrirtækið Garðlist ehf. lægst í tveimur útboðum, annars vegar fyrir Keflavíkurhverfi og hins vegar fyrir Njarðvíkurhverfi. Tilboð fyrirtækisins hljóðuðu samtals upp á rúmar 35 milljónir króna. Það var Ríkiskaup sem sá um framkvæmd útboðanna fyrir hönd Reykjanesbæjar.

Óhætt er að segja að íbúar í Reykjanesbæ séu ekki allir sáttir við þá vinnu sem fyrirtækið hefur unnið það sem af er sumri, en töluverðar umræður hafa skapast um vinnubrögðin í Facebook-hópi íbúa Reykjanesbæjar. Sömu sögu er að segja frá síðasta sumri hvar fyrirtækið sá um slátt á litlu svæði í Reykjanesbæ, en þar tóku íbúar hverfis sig til og mættu með sláttuvélar á það svæði sem fyrirtækið sá um og reyndu að ganga í störf verktakans.