Keflavík fór létt með Leikni – Grindavík tapaði í markaleik á Akureyri
Keflvíkingar og Grindvíkingar léku í Inkasso-deildinni í dag, Keflvíkingar fengu Leikni F. í heimsókn á Nettó-völlinn á meðan Grindvíkingar léku gegn Þórsurum á Akureyri.
Keflvíkingar fóru létt með Leiknismenn, skoruðu fjögur mörk gegn engu. Sigurbergur Elíasson kom Keflvíkingum á bragðið á 25. mínútu. Í síðari hálfleik bætti Jóhann Birnir Guðmundsson öðru marki við á 72. mínútu. Jónas Guðni Sævarsson bætti því þriðja við á 79. mínútu og Magnús Sverrir Þorsteinsson setti fjórða markið á lokamínútunni.
Grindvíkingar, sem þegar hafa tryggt sér sæti í Pepsí-deildinni að ári léku gegn Þór á Akureyri. Alexander Veigar Þórarinsson skoraði þrennu fyrir Grindvíkinga, það dugði þó ekki til því Þórsarar gerðu fjögur mörk.