Nýjast á Local Suðurnes

Bónusgreiðslur í Grindavík – „þykir jafn vænt um stúlkurnar og drengina”

Kvennalið Grindavíkur náði frábærum árangri í 1. deildinni í knattspyrnu í sumar, en liðið tryggði sér sæti í Pepsí-deildinni að ári, þrátt fyrir stórt tap gegn Haukum í úrslitaleik deildarinnar. Liðið lék 14 leiki í riðlakeppninni, sigraði tólf, tapaði einum og gerði eitt jafntefli. Í leikjunum fjórtán skoraði liðið 46 mörk og fékk aðeins á sig fjögur.

Karlaliðið náði svipuðum árangri, lenti í öðru sæti í Inkasso-deildinni og tryggði sér þar með sæti í Pepsí-deildinni að ári. Fyrir árangurinn skiptist um 6 milljóna króna bónusgreiðslur á milli leikmanna liðsins, sem gerir rétt um 300.000 krónur á hvern leikmann. Leikmenn kvennaliðsins fá ekki bónus þrátt fyrir sama árangur.

Í samtali við Vísi.is segir Jónas Þórhallsson tekjumöguleikana vera minni kvennamegin og það sé aðal skýringin á þessu máli, auk þess sem ákvæði um bónusgreiðslur var sett í samninga karlaliðsins.

„Árið 2012, eftir að við féllum, settum við sérstakan bónus inn í samninga leikmanna og nú erum við að efna hann,“ sagði Jónas í samtali við Vísi í dag.

„Það þarf að hafa tekjustofna á bak við svona samninga. Þetta eru snýst um markaðsaðstæður og verðmat.“

Jónasi þykir þó jafn vænt um strákana og stelpurnar og vonast til að þessi munur jafnist út með tíð og tíma.

„Þetta hefur ekkert með kala til kvenfólks að gera, alls ekki. Mér þykir jafn vænt um þær og drengina. Og með tíð og tíma kemur þetta,“ sagði Jónas við Vísi.