sudurnes.net
Útlit fyrir stöðugan hallarekstur A-hluta Reykjanesbæjar - Local Sudurnes
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir árið 2015 hafa verið hagstætt að flestu leyti í pistli sem hann skrifar á heimasíðu sveitarfélagsins. Í pistlinum fer Kjartan meðal annars yfir stöðuna á Sókninni, sem bæjaryfirvöld samþykktu árið 2014. Sóknarhluta pistilsins er að finna hér fyrir neðan: Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu Sóknarinnar; áætlunar sem bæjaryfirvöld samþykktu haustið 2014 að hrinda í framkvæmd eftir mikla vinnu KPMG og fleiri ráðgjafa við úttekt á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Sóknin samanstendur af 4 meginþáttum; A) að bæta framlegð í rekstri A-hluta bæjarsjóðs B) að halda fjárfestingum í nýjum innviðum í lágmarki C) að endurskipuleggja skuldir Reykjanesbæjar og D) að stöðva fjárstreymi frá A-hluta bæjarsjóðs yfir til fyrirtækja og stofnanna í B-hluta starfseminni s.s. Reykjaneshafnar og Fasteigna Reykjanesbæjar. Staðan í einstökum þáttum er nú þannig: A) Bætt framlegð A-hluta bæjarsjóðs. Útlit er fyrir að með samstilltu átaki sé starfsmönnum, stjórnendum og bæjaryfirvöldum að takast, með ýmsum hagræðingaraðgerðum en einnig auknum álögum á bæjarbúa, að auka framlegð úr grunnrekstri A-hluta bæjarsjóðs verulega. Framlegðin dugir þó hvergi til að standa undir afskriftum, vöxtum og fjárfestingum og mun ekki gera næstu árin nema takist að lækka skuldir og um leið vaxtagjöld. Á meðan er útlit fyrir stöðugan hallarekstur A-hluta [...]