Vilhjálmur vill einkavæða Fríhöfnina

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkið eigi að einbeita sér að því að sinna löggæslu og heilbrigðismálum en ekki að standa í nærbuxnasölu á Keflavíkurflugvelli. Þetta kom fram í máli hans á fundi Sjálfstæðisfélagsins í Reykjanesbæ í gærkvöldi en á fundinum var rædd aðkoma einkaaðila að rekstri Keflavíkurflugvallar.
Vilhjálmur hefur áður barist fyrir einkavæðingu ÁTVR og Landsbankans.
Á fundinum sagði Vilhjálmur að miklir hagsmunir væru í húfi fyrir íbúa Reykjanesbæjar og að gæta þurfi þess að íbúar verði hafðir með í ráðum verði hugmyndir um aukna aðkomu einkaaðila að rekstri flugvallarins að veruleika.
Á fundinum var Vilhjálmur spurður hvort aukinn einkarekstur hefði í för með sér færri störf á flugvellinum, sem hann svaraði neitandi. Þetta kemur fram á mbl.is.
“Það þarf að ráðast í mikla uppbyggingu á flugvellinum á næstu árum og það verður meiri eftirspurn eftir vinnuafli þar. Þannig ég sé miklu frekar fram á að störfum fjölgi og laun hækki ef það verður ráðist í þetta verkefni,“ segir Vilhjálmur.