Nýjast á Local Suðurnes

Tveir nýir framkvæmdastjórar til HS Orku

Sunna Björg Helgadóttir og Björk Þórarinsdóttir hafa verið ráðnar til HS Orku, Sunna er ráðin í starf framkvæmdastjóra tæknisviðs og Björk í stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og þjónustu. Báðar eru afar reynslumiklar á sínu sviði.

Sunna Björg Helgadóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku og hefur störf hjá fyrirtækinu í byrjun febrúar.

Sunna er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. gráðu í efna- og vélaverkfræði.

Víðtæk reynsla Sunnu mun nýtast fyrirtækinu í þeim fjölmörgu verkefnum sem eru framundan. Hún hóf sinn starfsferil hjá ISAL og starfaði þar samtals í 14 ár, síðast sem framkvæmdastjóri rafgreiningar frá 2013 – 2015. Þá tók hún við starfi framkvæmdastjóra tæknisviðs hjá Alvotech frá 2015- 2018 og nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Codex á Íslandi.

Björk Þórarinsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála- og þjónustu og tekur við starfi í lok janúar.

Björk er með Cand. Oecon. af stjórnunarsviði frá Háskóla íslands og próf í verðbréfamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík.

Í dag rekur Björk ráðgjafafyrirtæki á sviði viðskiptaþróunar, stefnumótunar og fjármálaráðgjafar. Áður starfaði hún m.a. hjá Arion banka (áður Kaupþing) á skrifstofu bankastjóra og sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Hún starfaði sem fjármálastjóri erlendis í alþjóðlegum fyrirtækjum í tæp 10 ár og hefur talsverða reynslu af setu í ýmsum stjórnum og ráðum.