Nýjast á Local Suðurnes

Gjáin varð fyrir valinu í nafnasamkeppni

Sem kunnugt er hefur félagsstarf UMFG og Kvenfélags Grindavíkur verið flutt í nýja og glæsilega félagsaðstöðu í nýrri íþróttamiðstöð Grindavíkurbæjar við Austurveg. Efnt var til nafnasamkeppni um aðstöðuna og bárust 40 tillögur um nöfn og margar þeirra með ítarlegum rökstuðningi. Stjórnir UMFG og Kvenfélags Grindavíkur komu saman í gærkvöldi til að velja bestu tillöguna og fyrir valinu varð nafnið GJÁIN. Hugmyndina átti Þórunn Halldóra Ólafsdóttir.

Í rökstuðningu hennar með tillögunni sagði:

„Við höfum þegar valið nafn á Bókasafnið og tónlistarskólann, Iðan og svo er annað menningartengt hús hér, Kvikan. Bæði þau nöfn bera viðskeyttan greini sem er algengt á Íslandi t.d Perlan, Kringlan, Esjan, Harpan og finnst mér því Gjáin falla vel við þau sérnöfn.
Gjá milli tveggja heimsálfa er hérna rétt við bæjarnefið okkar sem og sprungur og gjár víða að finna í Grindavík og nágrenni þó margar hafi verið fylltar upp og íbúðahús standa jafnvel á þeim í dag.”

Þórunn Halldóra fær í verðlaun árskort í nýju líkamsræktarstöðinni sem Gymheilsa ehf. rekur í íþróttamiðstöðinni og árskort fyrir tvo á heimaleiki UMFG í úrvalsdeild karla og kvenna í körfubolta í vetur. Verðlaunin verða afhent við formlega opnun nýju íþróttamiðstöðvarinnar sem verður á næstunni.

Stjórnir UMFG og Kvenfélags Grindavíkur þakka fyrir allar tillögurnar og ótrúlega flotta þátttöku í nafnasamkeppninni, segir á heimasíðu sveitarfélagsins.