Nýjast á Local Suðurnes

Mættu ekki á æfingar og boluðu Margréti burt

Það vakti töluverða athygli þegar Margréti Sturlaugsdóttur var vikið úr starfi þjálfara kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik á dögunum. Uppsögnin kom mörgum á óvart því gengi liðsins að hefur verið gott að undanförnu og staðan í deildinni góð þrátt fyrir ungan meðalaldur liðsins.

Í kjölfarið á uppsögn Margrétar hætti eiginmaður hennar, Falur Harðrson sem formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur en Falur, sem verið hefur viðloðandi körfuknattleiksdeildina frá unga aldri var á árum áður einn af burðarásum Keflavíkurliðsins og vann fjölda tiltla með liðinu, bæði í deild og bikar.

Hætti sem aðstoðarþjálfari landsliðsins

Upphafið að brottrekstri Margrétar frá Keflavík má sumpart rekja til atviks sem upp kom síðastlið haust þegar upp komu deilur á milli hennar og Bryndísar Guðmundsdóttur, fyrrverandi leikmanns Keflavíkur, sem yfirgaf uppeldisfélagið sitt snögglega þegar Íslandsmótið var rétt að hefjast. Í kjölfarið á þeim deilum, sem snérust að sögn Margrétar um hlutverk Bryndísar í liðinu, sagði Margrét starfi sínu sem aðstoðarlandsliðsþjálfari lausu.

„Þar sem ég hef einlæga trú á því að enginn sé stærri en liðsheildin (ég þar með talin) þá veit ég að þetta er rétt ákvörðun og tekin með það að leiðarljósi að Bryndísi Guðmundsdóttur fyrrum leikmanni Keflavíkur líði vel á landsliðsæfingum.“ Sagði Margrét í samtali við Vísi.is á þeim tíma.

Mættu ekki á æfingar og boluðu þjálfaranum burt

Margrét mætti í viðtal í útvarpsþáttinn Akraborgin í gær og ræddi opinskátt um brottreksturinn frá Keflavík, þar kom meðal annars fram að það hafi aðallega verið tveir leikmenn liðsins sem voru mjög óánægðir með störf Margrétar, annar þeirra Sandra Lind Þrastardóttir, sem var látin byrja á bekknum gegn Grindavík.

„Það síðasta sem gerist er að ákveðinn leikmaður byrjar ekki inn á því hún var ekki búin að mæta á tvær æfingar. Það var ekki flókið,“ sagði Margrét í viðtalinu.

„Ég sem þjálfari vill ráða hverjir eru í byrjunarliðinu og hvernig mínútunum er skipt. Það þykir bara óeðlilegt í dag og ég sætti mig alveg með það. Ég er þá kannski bara svona skrítin þjálfari og verð að kyngja þessu,“ segir Margrét.

Margrét viðurkennir að þessir tveir leikmenn hafi bolað henni burt: „Það er alveg klárt mál. Þær tilkynntu að annað hvort færu þær eða ég. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það.“

Gefur tóninn fyrir framtíðina

Margrét kemur inn á það í viðtalinu að alltof margir séu að skipta sér af störfum þjálfara í dag og að það sé eitthvað sem íþróttahreyfingin í heild sinni þurfi að skoða alvarlega, hennar tilfelli sé ekki einangrað:

„Þetta er eitthvað sem íþróttahreyfingin þarf að fara að tækla. Það eru annað hvort mömmur og pabbar [að skipta sér af] og þetta er komið alla leið upp í landsliðin eins og við sáum með handboltalandsliðið á dögunum,“ segir Margrét.

„Nú þarf bara að sjá hvaða línu klúbburinn ætlar að draga og hvernig hann ætlar að markaðssetja sig fyrir komandi framtíð. Þetta er auðvitað búið að gefa tóninn. Ef þú ert ekki ánægður hótarðu öllu illu og færð þitt í gegn,“ sagði Margrét Sturlaugsdóttir.