Bæjarins beztu bæta við stað á KEF

Bæjarins beztu pylsur hafa opnað sinn annan sölustað á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða pylsuvagn sem er í svokölluðu „pop-up“ rekstrarrými á biðsvæði í suðurbyggingu flugvallarins. Fyrir rekur fyrirtækið annan stað í komurými flugstöðvarinnar.
Aðeins þeir farþegar sem eru á leið til Bretlands, Bandaríkjanna og annarra landa utan Schengen-svæðisins geta nýtt sér staðinn, sem verður aðeins opinn í eitt ár.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Isavia.
„Isavia auglýsti í vetur eftir aðilum til að reka veitingasölu í pop-up rýmum á biðsvæði í suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar. Biðsvæðið er fyrir farþega sem hafa farið í gegnum landamæri og eru á leið til landa utan Schengen-svæðisins,“ segir í tilkynningunni.