Nýjast á Local Suðurnes

Keilir bætir við flugvélum – Fullbókað í atvinnuflugmannsnám

Mynd: Keilir
Vegna aukinna umsvifa hefur Flugakademía Keilis fest kaup á fjórum nýjum DA40 kennsluflugvélum sem munu bætast við flugflota skólans snemma á næsta ári. Eftir kaupin hefur skólinn til umráða alls fjórtán flugvélar frá Diamond flugvélaframleiðandanum: átta DA40 fjögurra sæta vélar, fimm DA20 tveggja sæta vélar og eina tveggja hreyfja DA42 kennsluvél.

DA40 flugvélar Keilis eru með tæknivæddustu kennsluvélum á landinu, búnar fullkomnum blindflugsbúnaði, stórum tölvuskjám og nútíma flugmælitækjum. Með komu nýju vélanna hefur skólinn yfir að ráða einn nýstárlegasta og yngsta flota kennsluvéla í Evrópu. Fyrirhugað er að fyrstu tvær vélarnar verði afhentar í mars næstkomandi og þær seinni í lok maí.

Þá festi Flugakademían nýverið kaup á fullkomnum flughermi frá Diamond fyrir þjálfun á tveggja hreyfla DA42 flugvél skólans og bætist hann við núverandi Redbird hreyfanlegan flughermi skólans. Nýi flughermirinn verður tekinn í notkun í janúar 2018 og mun auka verulega við þjálfunarmöguleika atvinnuflugnema við skólann.

Fullbókað í atvinnuflugmannsnám í vor

Nú eru á þriðja hundrað nemendur í atvinnuflugnámi í Flugakademíu Keilis. Aukin ásókn hefur verið í námið á undanförnum misserum og er fullbókað í bæði samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugnám í janúar, auk þess sem fullmannað var í cadet nám Icelandair og Keilis sem hófst í nóvember.