Nýjast á Local Suðurnes

Isavia hlaut hvatningarviðurkenningu í loftslagsmálum

Isavia hlaut dögunum hvatningarviðurkenningu í loftslagsmálum frá Reykjavíkurborg og Festu. Þetta var í fyrsta sinn sem Loftslagsviðurkenningarnar voru veittar. Telja borgin og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, að Isavia hafi sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum.

Milli áranna 2015 og 2016 hefur dregið úr heildarlosun Isavia á gróðurhúsalofttegundum um 49 tonn kolefnisígilda, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þá er Isavia þátttakandi í Airport Carbon Accreditation, kerfi á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla.

Verkefnið skiptist alls í fjögur stig; kortlagningu kolefnisspors, markmiðasetningu og minnkun kolefnislosunar, minnkun kolefnislosunar í samstarfi við þriðja aðila (annarra rekstraraðila á flugvellinum) og lokastigið er kolefnisjöfnun flugvallarins.

Isavia undirritaði loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar, í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París 2015 og hefur sett sér markmið í loftslagsmálum og birt þau.

Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu og það var Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sem tók við henni. Eftir afhendingu viðurkenninganna var María Kjartansdóttir, verkefnastjóri umhverfismála hjá Isavia, með kynningu á verkefnum og aðgerðum Isavia í loftslagsmálum.