Nýjast á Local Suðurnes

Fjárhagslegum markmiðum náð í Sandgerði

Fjárhagsáætlun Sandgerðisbæjar var afgreidd á fundi bæjarstjórnar þann 5. desember síðastliðinn. Við afgreiðslu áætlunar var því sérstaklega fagnað að fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga um rekstrarjöfnuð og skuldaviðmið skuli náð.

Hér að neðan má sjá bókun sem gerð var við afgreiðslu málsins auk áæltunarinnar, greinagerðar með henni og gjaldskrár.

Fjárhagsáætlun Sandgerðisbæjar fyrir árið 2018 og árin 2019-2022 er unnin með hliðsjón af 10 ára aðlögunaráætlun bæjarins 2012 til 2022. Við gerð aðlögunaráætlunar árið 2012 var gert ráð fyrir að ákvæðum sveitarstjórnarlaga um rekstrarjöfnuð og skuldaviðmið yrði náð á tímabilinu. Sú áætlun sem nú er afgreidd sýnir að á árinu 2018 nást ákvæði um rekstrarjöfnuð og skuldaviðmið og er það nokkru fyrr en upphaflega var áætlað.

Rekstrartekjur ársins 2018 eru áætlaðar 2.146  mkr. og  rekstrarútgjöld eru áætluð 1.835 mkr.  Fjármagnsliðir eru áætlaðir 166 mkr. og afskriftir 127 mkr. Þannig er áætluð  rekstrarniðurstaða jákvæð um tæpar 18 mkr.

Breytingar á gjaldskrám taka mið af verðlagsbreytingum og hækka að jafnaði um 2,7%. Fasteignaskattur lækkar úr 0,5% í 0,4% og er þetta annað árið í röð sem bæjarstjórn ákveður að lækka fasteignagjöld, en síðasta ár var fráveitugjald lækkað um 16%.

Meðal þeirra nýframkvæmda sem ráðist verður í á árinu 2018 eru framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi ofan við Stafnesveg, umferðaröryggi við grunnskólann verður bætt með betri aðkomu bíla við Suðurgötu, endurbótum á suðurbryggju Sandgerðishafnar verður haldið áfram, lokið verður við útrás fráveitu sem mun uppfylla umhverfiskröfur, auk malbikunar göngustíga.

Þá er áætlað að ljúka við gerð fjölmenningarstefnu, umhverfisstefnu og lýðheilsustefnu.

Eins og undanfarin ár hefur ríkt góð samvinna og samstaða innan bæjarstjórnar við vinnslu fjárhagsáætlunar og um þær áherslur sem þar koma fram.

Bæjarstjórn þakkar bæjarstjóra og öðrum starfsmönnum Sandgerðisbæjar vönduð og góð vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Bæjarstjórn og bæjarstjóri fagna því sérstaklega að fjárhagslegum markmiðum skuli náð nú við framlagningu síðustu fjárhagsáætlunar Sandgerðisbæjar.

Fjárhagsáætlun

Greinagerð

Gjaldskrá Sandgerðisbæjar