AwareGo í samstarf við stærsta net- og tölvuöryggisfyrirtæki heims
Tölvuöryggisfyrirtækið AwareGo, sem staðsett er á Ásbrú, hefur gert samstarfssamning við KnowBe4 í Bandaríkjunum, en fyrirtækið, sem sérhæfir sig í kennslu í net- og tölvuöryggismálum, er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum.
Um 15.000 fyrirtæki notast við vörur KnowBe4 og eru höfuðstöðvar þess í Florida en auk þess rekur fyrirtækið skrifstofur í London og Amsterdam. Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGo segir að það sé ánægjulegt að hefja samstarf við stærsta fyrirtæki heims í þessum geira í sameiginlegri tilkynningu sem fyrirtækin sendu frá sér.
„Það er ánægjulegt að hefja samstarf við stærsta fyrirtækið á þessum markaði. Okkar lausnir höfða til þeirra sem hafa ekki mikinn tíma og henta því vel inn í breiðan hóp viðskiptavina þeirra,“ segir Ragnar í tilkynningunni.
AwareGo framleiðir stutt tölvuöryggismyndbönd með skilaboðum til starfsmanna um hvernig eigi að varast þjófnað á rafrænum gögnum og fleira er snertir net- og tölvuöryggi. Notendur AwareGo eru um ein milljón starfsmanna fyrirtækja út um allan heim, en stærstu viðskiptavinirnir eru GE, Barclays og Credit Suisse, sem eru í hópi stærstu banka heims í dag.
Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af þeim myndböndum sem AwareGo framleiðir: